Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 174/2022- Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 174/2022

Fimmtudaginn 30. júní 2022

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. mars 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er heimilislaus og sótti um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 19. október 2021. Umsókn kæranda var samþykkt á biðlista með ákvörðun þjónustumiðstöðvar, dags. 6. janúar 2022. Kærandi endurnýjaði umsókn sína um félagslegt leiguhúsnæði með umsókn, dags. 2. mars 2022, og var hún samþykkt á biðlista með ákvörðun þjónustumiðstöðvar, dags. 6. maí 2022.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 29. mars 2022. Með bréfi, dags. 8. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 6. maí 2022 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. maí 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi ólöglega verið sviptur leiguhúsnæði þegar fjárfestingafélag hafi tekið yfir íbúð leigusala hans. Kærandi hafi verið án húsnæðis í að verða tvö og hálft ár og hafi leitað til félagsþjónustu eftir húsnæði á viðráðanlegum kjörum því að almenni leigumarkaðurinn hafi farið illa með hann.

Kærandi tekur fram að það flykkist þúsundir flóttamanna til landsins sem fái skjól án vandræða á meðan hann berjist fyrir lífi sínu og limum. Boðið sé upp á gistiskýli sem sé blandað af mönnum sem berji og ræni kæranda. Kærandi sé fyrrverandi opinber starfsmaður sem hafi sinnt sjúkrabílaakstri, löggæslustörfum og öðrum ábyrgðarstöðum. Kærandi sé öryrki eftir margra áratuga starf í þágu ríkis og þjóðar. Kærandi hafi ítrekað fylgt eftir húsnæðisstuðningi hjá sinni félagsþjónustu í Miðgarði, Grafarvogi, og erfitt sé að fá önnur svör en að þau taki eingöngu við umsóknum sem fari síðan fyrir nefnd. Kærandi hafi verið kallaður róni og annað afar ósmekklegt þegar hann hafi komið á þjónustumiðstöðina eftir að hafa verið rændur og barinn í gistiskýlinu sem hann hafi neyðst til að leita skjóls í í of langan tíma. Menn séu þar reknir út á morgnana í öllum veðrum og hvernig sem heilsan sé. Kærandi hafi verið hálflappalaus og stórslasaður oft og tíðum þar sem enginn staður sé til að vera á yfir daginn nema köld gatan. Innbúi kæranda hafi meira eða minna verið rænt úr geymslugámum. Kærandi kveðst vera á þolmörkum þess að hafa lengur lífsvon og vilja til að lifa þegar naumt sé skammtað fyrir nauðsynjavörum hjá Tryggingastofnun. Allir þurfi læknisþjónustu, fatnað, mat og húsaskjól.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gamall karlmaður sem sé heimilislaus. Kærandi hafi sótt um félagslegt húsnæði með umsókn, dags. 19. október 2021. Umsókn hans hafi verið samþykkt með bréfi þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts, dags. 6. janúar 2022, og kærandi metinn til 11 stiga. Kærandi hafi endurnýjað umsókn um félagslegt húsnæði [2. mars 2022], sbr. 29. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Svar við endurnýjun á umsókn kæranda hafi borist frá þjónustumiðstöð Austur með bréfi, dags. 6. maí 2022, og hafi hann verið metinn til 12 stiga. Í bréfinu komi fram að stigagjöf haldist óbreytt við endurmat en tekin hafi verið í notkun nýr húsnæðisgrunnur hjá Reykjavíkurborg og í þeim grunni sé gefið eitt stig hafi umsækjandi átt lögheimili í Reykjavík í meira en tólf mánuði og í því liggi munurinn.

Reykjavíkurborg tekur fram að um félagslegt leiguhúsnæði gildi reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sem hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 19. janúar 2019 og á fundi borgarráðs þann 27. janúar 2022. Reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hafi tekið gildi þann 1. júní 2019. Umræddar reglur kveði á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum sé skylt að veita. Reglurnar séu settar með stoð í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, 4. tölul. 13. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra og 9. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og 4. tölul. 13. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar sé almennt félagslegt leiguhúsnæði ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem séu ekki á annan hátt fær um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga nr. 41/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga skuli sveitarstjórnir, eftir því sem kostur sé og þörf sé á, tryggja framboð af leiguhúsnæði handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem séu ekki á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Af orðalagi ákvæðisins leiði að þeir einstaklingar, sem uppfylli skilyrði reglna sveitarfélags til að fá almennt félagslegt leiguhúsnæði, kunni að þurfa að bíða í nokkurn tíma eftir því að fá úthlutað slíku húsnæði. Með hliðsjón af framangreindu og þeirri staðreynd að umsókn kæranda sé frá 19. október 2021, eða einungis sex mánaða, sé því alfarið hafnað að biðtími kæranda eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði sé óásættanlegur eða gangi með einhverjum hætti í berhögg við 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sveitarfélögum sé tryggður sjálfstjórnarréttur í samræmi við ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar og í honum felist meðal annars það að sveitarfélög ráði hvernig útgjöldum sé forgangsraðað í samræmi við lagaskyldur og áherslur hverju sinni. Með hliðsjón af þeirri sjálfstjórn sem sveitarfélögum sé veitt setji þau sér sínar eigin reglur um rétt íbúa á grundvelli laganna. Lögunum sé því einungis ætlað að tryggja rétt fólks en ekki skilgreina hann, enda sé það verkefni hvers sveitarfélags. Því geti einstaklingar ekki gert kröfu um ákveðna, skilyrðis- og tafarlausa þjónustu heldur helgist framboð hennar af því í hvaða mæli sveitarfélagi sé unnt að veita þjónustuna. Í samræmi við framangreint hafi Reykjavíkurborg sett reglur um félagslegt leiguhúsnæði.

Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fari eftir reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og fari fram á sérstökum fundum úthlutunarteyma. Í 19. gr. reglnanna komi fram að þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar leggi faglegt mat á þær umsóknir sem metnar hafi verið samkvæmt matsviðmiðum með reglunum. Úthlutunarteymi félagslegs leiguhúsnæðis forgangsraði umsóknum frá þjónustumiðstöðvum og úthluti húsnæði samkvæmt reglum um félagslegt leiguhúsnæði og taki forgangsröðun mið af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum reglnanna, sbr. 17. gr. reglnanna.

Reykjavíkurborg hafi viðurkennt rétt kæranda til að fá úthlutað almennu félagslegu leiguhúsnæði. Í þeirri stjórnvaldsákvörðun felist þó ekki að veita beri kæranda umrætt úrræði með skilyrðislausum og tafarlausum hætti. Engin lagaákvæði mæli fyrir um slíka skyldu eða viðmiðunartímafresti í þessu sambandi, enda verði að telja að slíkt fyrirkomulag væri með öllu óraunhæft. Unnið sé að því að útvega kæranda félagslegt leiguhúsnæði og umsókn hans sé á biðlista. Rétt sé að geta þess að í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga hafi ráðgjafi kæranda reglulega upplýst hann símleiðis um stöðu umsóknar hans um félagslegt leiguhúsnæði.

Með hliðsjón af framangreindu sé það mat Reykjavíkurborgar að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga og að kærandi hafi verið upplýstur um þær tafir sem hafi orðið. Ljóst sé að Reykjavíkurborg hafi ekki brotið gegn lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, stjórnsýslulögum eða ákvæðum annarra laga.

IV.  Niðurstaða

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála vegna afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði. Kærandi er heimilislaus og sótti um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 19. október 2021. Umsókn kæranda var samþykkt á biðlista með ákvörðun þjónustumiðstöðvar, dags. 6. janúar 2022. Kærandi endurnýjaði umsókn sína um félagslegt leiguhúsnæði með umsókn, dags. 2. mars 2022, og var hún samþykkt á biðlista með ákvörðun þjónustumiðstöðvar, dags. 6. maí 2022. Kærandi bíður enn úthlutunar húsnæðis og lítur úrskurðarnefndin svo á að kærður sé dráttur á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Í 4. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði samþykkt á biðlista og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–e-liðum 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt e-lið 4. gr. eru umsóknir metnar samkvæmt ákveðnum matsviðmiðum og við lok mats eru reiknuð stig fyrir hvern þátt fyrir sig. Til þess að umsókn verði samþykkt á biðlista skuli umsækjandi vera metinn til að lágmarki níu stiga þegar um er að ræða einstakling/hjón eða sambúðarfólk.

Í VI. kafla reglnanna er kveðið á um forgangsröðun og úthlutun. Þar segir í 1. mgr. 17. gr. að umsóknum sé raðað í forgangsröð með hliðsjón af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt niðurstöðu stigagjafar samkvæmt matsviðmiðum. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. reglnanna fer úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fram á sérstökum fundum úthlutunarteyma sem skipuð eru með sérstöku erindisbréfi. Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar leggja faglegt mat á þær umsóknir sem metnar hafa verið samkvæmt matsviðmiðum með reglunum, sbr. 2. mgr. 19. gr. reglnanna. Í 4. mgr. 19. gr. kemur fram að úthlutunarteymi félagslegs leiguhúsnæðis forgangsraði umsóknum frá þjónustumiðstöðvum og úthluti húsnæði samkvæmt reglunum. Forgangsröðun taki mið af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum reglnanna. Þá segir í 30. gr. reglnanna að ráðgjafi skuli endurmeta aðstæður umsækjanda á meðan beðið sé úthlutunar á húsnæði og veita félagslega ráðgjöf ef þurfa þyki.

Hvorki í lögum nr. 40/1991 né framangreindum reglum Reykjavíkurborgar er kveðið á um lögbundinn frest til að úthluta félagslegu leiguhúsnæði til þeirra sem uppfylla skilyrði til að vera á biðlista. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því að líta til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við mat á því hvort afgreiðsla á máli kæranda hefur dregist. Þar kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Líkt og að framan greinir sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði með umsókn, dags. 19. október 2021, og hefur verið á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði frá 6. janúar 2022. Ljóst er að kærandi er í bráðum húsnæðisvanda og því mikilvægt að útvega kæranda viðeigandi húsnæðisúrræði eins fljótt og auðið er. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að unnið sé að því að útvega kæranda félagslegt leiguhúsnæði og að ráðgjafar þjónustumiðstöðvar hafi reglulega upplýst kæranda símleiðis um stöðu umsóknar hans. Samkvæmt þeim skýringum sem Reykjavíkurborg hefur veitt og gögnum málsins er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að sveitarfélagið hafi unnið í máli kæranda með viðunandi hætti. Líta verður til þess að kærandi hefur verið á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði frá 6. janúar 2022, eða í um það bil sex mánuði. Með vísan til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla máls kæranda hafi ekki dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin bendir þó á að ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna og auk þess hvenær ákvörðunar um úthlutun húsnæðis sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ekki er fallist á að afgreiðsla Reykjavíkurborgar í máli A, hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum